Þegar krafa samfélagsins kallaði á einstaklingsmiðað nám settu höfundar Skerpu – Vallaskólaleiðarinnar saman ýmsar hugmyndir sem þeir gætu nýtt sér við kennslu. Sótt var í smiðju Daltonskóla og hlítarnáms auk þess sem unnið var með ýmsar hugmyndir höfunda. Úr varð ný hugmyndafræði sem tekur mið af lýðræði í skólastarfi og þörfum íslenskra unglinga. Unnið er út frá einkunnarorðum Vallaskólaleiðarinnar; frelsi, ábyrgð, samvinna og sjálfstæði.
Hugmyndafræðinni að baki Skerpu er ætlað að örva nemendur til sjálfstæðra vinnubragða og bera ábyrgð á eigin námi. Ábyrgð í námi ætti síðan að stuðla að því að byggja upp sterka sjálfsmynd þeirra sem sjá að með staðföstum vilja, skipulagningu og dugnaði næst árangur sem þeir geta verið stoltir af.
Í Skerpu eru vinnubrögðin sem nemendum er ætlað að tileinka sér nokkuð önnur en í hefðbundinni kennslu. Unnið er í þriggja vikna lotum og nemendur fá uppgefið allt námsefni þeirra um leið og þær hefjast. Nemendur geta þá hafist handa og unnið á sínum hraða. Hverri lotu fylgir kennsluáætlun eða verkefnaskrá sem nemendur hafa til viðmiðunar. Þar eru öll verkefni skilgreind, hvort sem um er að ræða lestur og undirbúning eða beina verkefnavinnu. Verkefni hverrar lotu eru fjölbreytt og taka á öllum þáttum íslenskunnar. Í hvaða röð þau eru unnin skiptir ekki máli.
Þegar nemendur ljúka allri vinnu lotunnar taka þeir gagnvirkt sjálfspróf. Sjálfsprófið hjálpa þeim að meta stöðu sína í náminu. Ef illa gengur er enn tími til upprifjunar fyrir lotuprófið.
Kennsla þar sem tekið er mið af hugmyndafræði Skerpu er ólík þeirri hefðbundnu þar sem nemendur sjálfir og vinna þeirra fær meira vægi. Kennarinn leggur inn efnið samkvæmt verkefnaskránni sem afhent er í upphafi lotunnar. Sú innlögn er hnitmiðuð og nægir til þess að góður hluti nemenda getur hafið vinnu. Það gefur kennaranum svigrúm til þess að sinna hinum nemendunum enn betur. Ákveðinn hópur nemenda getur ekki tileinkað sér efnið án einstaklingskennslu og því er þessi tími með kennaranum ákaflega mikilvægur.
Nemendur sem vinna eftir hugmyndafræði Skerpu skapa sér flestir gott vinnulag. Þeir verða skipulagðir, sjálfstæðir og taka ábyrgð á vinnu sinni. Einnig vinna nemendur oft saman, bæði í hópverkefnum og einstaklingsverkefnum og skapast þá skemmtilegar umræður um viðfangsefnið. Í upphafi tíma þarf ekki ítrekað að biðja nemendur að taka upp námsgögn og hefja vinnu, þeir gera það flestir óumbeðnir. Þeir eru í raun sínir eigin verkstjórar. Nemandinn veit að því betur sem hann vinnur í tímanum því minna verður heimanámið. Þótt nemendum sé ekki sett fyrir heimanám á formlegan hátt vita þeir að það sem þeir ekki ljúka við í tímanum þarf að vinna heima.
Þegar kennarinn þeirra er forfallaður þarf síður að fella niður tíma því nemendur vita upp á hár hvaða verkefni þeir eiga að vinna. Einnig auðveldar þetta skipulag vinnu nemenda þegar þeir þurfa að taka sér lengri frí, s.s. vegna utanlandsferða fjölskyldunnar. Það hjálpar einnig foreldrum að bera ábyrgð á vinnu barna sinna.
Bráðgerum nemendum hentar vel að vinna samkvæmt hugmyndafræðinni vegna þess að þeir geta unnið hraðar en meðalnemendur. Þessir nemendur geta margir unnið þriggja ára námsefni á tveimur árum og eru þá tilbúnir til að takast á við verkefni framhaldsskólans.
Annað mikilvægt atriði í hugmyndafræði Skerpu er viðmiðunartalan sem endurspeglar markmið hvers nemanda. Viðmiðunartalan er fundin út í samvinnu kennara og nemanda og á að endurspegla námsgetu einstaklingsins. Um leið á hún að vera ákveðin ögrun til þess að gera sífellt betur. Hver nemandi er einstakur og því eru viðmiðunartölur nemenda ólíkar. Þótt allir geti unnið verkefnin sín sómasamlega geta nemendur ekki allir náð sömu einkunn á prófi. Því er mikilvægt að nemendur skoði alla sína vinnu og árangur prófa út frá sjálfum sér en ekki heildinni.
Skerpu fylgir er sérstakt forrit sem heldur utan um einkunnir nemenda. Þar eru einkunnir færðar inn í lok hverrar lotu. Síðan er yfirlitsblað afhent nemendum á þriggja vikna fresti. Þetta auðveldar nemendum og foreldrum þeirra að skoða árangurinn auk þess sem kennarinn hefur góða yfirsýn.
Námsefni Skerpu – Verkefnabækur og vefur
Til að hægt sé að vinna eftir hugmyndafræði Vallaskólaleiðarinnar þarf kennsluefni við hæfi. Þrjár verkefnabækur fylgja Skerpu, Skerpa 1, Skerpa 2 og Skerpa 3. Einnig er tvískiptur námsvefur sem ætlaður er bæði nemendum og kennurum.
Bygging námsbókanna er sú sama í öllum árgöngum og byggir á lotuskiptingunni. Hver bók skiptist í 8 til 10 lotur og áætlaður vinnutími hverrar lotu er þrjár vikur. Hver lota hefst á markmiðum og glósum, það styður einstaklingsmiðað nám og eykur færni nemenda til að takast á við það. Síðan fylgja ýmis konar verkefni úr öllum þáttum íslenskunnar sem gera nemendur að betri málnotendum á tímum tölvumálfars og hnignandi málvitundar. Mikil áhersla er lögð á að verkefnin reyni á rökhugsun, skilning og færni einstaklingsins til að skipuleggja nám sitt í nútíð og framtíð og auðveldar bráðgerum nemendum að fara hraðar í gegnum námið.
Vefur Skerpu er tvískiptur, annars vegar er kennarahluti sem styður kennarann við kennslu eftir hugmyndafræði Vallaskólaleiðarinnar. Þar eru kennsluleiðbeiningar, kennsluskrár, leslistar, verkefnaskrár nemenda og ýmis önnur gögn sem hann nýtir við kennsluna. Sumt af þessu afhendir hann nemendum, s.s. leslista, bókalista og verkefnaskrár. En annað er hugsað sem hjálpargögn við kennsluna sjálfa, s.s. glærur, hugtakalistar og kennslukver. Auk þess eru tvö próf fyrir hverja lotu sem kennari prentar út og leggur fyrir. Að auki er á vefnum sérstakt forrit sem hannað var fyrir Vallaskólaleiðina. Forritið heldur utanum allar einkunnir nemenda og auðveldar kennara yfirsýn.
Á nemendahluta vefsins eru ýmis konar stuðningur við námið, kennsluhefti, gagnvirk verkefni og sjálfspróf. Verkefnin styðja við námsefni bókarinnar og eru mikilvæg viðbót við hana auk þess sem þau hjálpa nemendum við að þjálfa færni sína á ýmsum sviðum. Því meira sem nemendur æfa sig því öruggari verða þeir um leið og færni og sjálfstraust vex. Þegar nemendur sjá að árangur batnar langar þá oft til að bæta hann enn frekar. Þannig virka gagnvirk verkefni og próf vel og eru hvetjandi.
Að lokum
Höfundar Skerpu vilja gjarnan að kennarar hafi ákveðið frelsi. Þannig geta þeir sem kenna samkvæmt Vallaskólaleiðinni notað efni að vild. Á vef Skerpu getur kennari breytt leslistum, verkefnaskrám og prófum og aðlagað að kennslu sinni. Það á að vera styrkur Vallaskólaleiðarinnar að vera í sífelldri þróun og draga fram það besta í námsefni hverju sinni.